Covid-19 Sálfræðileg bjargráð

Hvernig geri ég drauma mína að veruleika?

Ef þú hefur ekki þegar gert það, hvet ég þig til þess að búa þér til þína eigin heillandi og háleita framtíðarsýn. Leyfðu þér að dreyma og sjá hvað það er sem þú þráir mest og skiptir þig mestu máli í lífinu. Hefur þú kannski heillandi og háleitar hugmyndir um hverju þú myndir vilja áorka en gengur illa að koma þeim í framkvæmd. Þeir sem þjást af fullkomnunar- eða frestunaráráttu hafa oft heillandi framtíðarsýn en skortir færni til að koma hugmyndum sínum í framkvæmd.

Framtíðarsýn er nauðsynleg en ekki nægjanleg til þess að hámarka líkur á árangri. Ásamt heillandi framtíðarsýn er nauðsynlegt að útbúa raunsæja áætlun um það hvernig þú ætlar að gera framtíðarsýn þína að veruleika. Það felur í sér að þú setur þér markmið. Markmið veita þér stefnu til aðgerða, byggja undir áhugahvöt til athafna og hvetja þig til lausnamiðaðrar hugsunar um hvernig þú nærð árangri. En markmið eru aðeins áhrifarík ef þau eru sett á skynsaman hátt og þar skipta nokkur grundvallaratriði lykilmáli.

Árangursrík markmið eru ögrandi eða krefjandi. Fólk sem setur sér krefjandi markmið áorkar meiru en þeir sem setja sér hógværari markmið. Þetta á þó aðeins við upp að vissu marki því markmið sem eru það krefjandi, að óraunhæft er að geta staðið við þau, vinna gegn árangri. Settu þér því markmið sem eru bæði krefjandi og raunsæ.

Markmið verða enn árangursríkari ef þau eru sértæk en ekki almenn. Þegar þú setur þér almenn markmið eins og að „gera þitt besta“ ertu ekki að hámarka líkur á því að þú gerir í raun þitt besta. Slík markmið veita of mikið rúm fyrir órökréttar réttlætingar og frestun á mikilvægum verkefnum. Settu þér markmið sem eru það sértæk að þú veist nákvæmlega hvenær þú ert að standa við þau og hvenær ekki.

Raunverulegur árangur í lífinu næst með því að áorka einhverju en ekki forðast hluti. Markmið um að forðast eitthvað veldur því að athygli þín beinist að því sem þú vilt ekki og það vinnur gegn árangri. Þegar þú setur þér markmið um að framkvæma eitthvað eða áorka einhverju beinir það athyglinni að því sem þú vilt og eykur líkur á árangri.

Mælanleg markmið leiða til betri árangurs en þau sem ekki er hægt að mæla. Þegar þú mælir árangur getur þú með fylgst betur með því hvort þú nærð markmiðum þínum eða ekki og það verður þér hvatning til dáða.

Markmið sem hafa stuttan tímafrest mynda meiri hvata í hinu daglega lífi en langtímamarkmið. Þótt langtímamarkmið geti verið nytsamleg er ráðlagt að brjóta slík markmið í smærri undirmarkmið. Legðu áherslu á að vinna mest með markmið þar sem tímafresturinn er talinn í klukkustundum og dögum.

Að lokum, settu þér markmið sem eru þér mikilvæg og í samræmi við þína eigin framtíðarsýn og gildi. Með því að fylgja þessum grundvallaratriðum við að setja þér markmið eykur þú verulega líkur á því að framtíðarsýn þín verði að veruleika.

Deildu þessum pistli á

Share on facebook
Share on twitter
Share on linkedin
Share on google
Share on pinterest
Share on email

Hlúðu að geðheilsunni í sóttkví

Fyrir ekki löngu síðan óraði okkur ekki fyrir því að standa frammi fyrir þeim fordæmalausu aðstæðum sem nú eru. Á meðan yfirvöld og við öll …

Lesa meira →

Ótti er ekki besta merkið um hættu

Skynjuð hætta manneskjunnar er að stórum hluta til knúin áfram af tilfinningum. Þetta hafa sálfræðilegar rannsóknarniðurstöður sýnt í áratugi. Það sem þessar niðurstöður sýna er …

Lesa meira →

Þeir sem fylgjast meira með Covid-19 upplifa meiri hættu

Rannsóknir benda til þess að eftir því sem við lesum meira um covid-19 veiruna á samfélagsmiðlum þeim mun meiri hættu skynjum við af völdum hennar …

Lesa meira →