Af hverju næ ég ekki árangri í lífinu?

Margir þeirra sem ég hef aðstoðað í starfi mínu sem sálfræðingur hafa leitað til mín af því þeim fannst þeir ekki vera að ná árangri í lífi sínu, ýmist í einkalífi, starfi eða á öðrum sviðum. Allir vilja ná árangri en mörgum finnst þeim ekki vera að takast það. Ráðleggingar um aðferðir til þess að ná betri árangri berast almenningi úr ýmsum áttum eins og sjálfshjálparbókum, fyrirlestrum, vefsíðum, útvarpi og sjónvarpi. Staðreyndin er sú að margar algengustu aðferðirnar sem fólk notar endurtekið til þess að ná árangri eru ekki studdar af niðurstöðum rannsókna, standast ekki skoðun almennrar skynsemi og eru ýmist gagnslausar eða hamla árangri. Reynsla mín og þekking á þessu sviði segir mér að það sem almennt heldur mest aftur af árangri fólks er ekki óheppni, leti, aumingjaskapur, ónógur viljastyrkur eða skortur á innri hæfileikum, heldur það að allt of margir nota óskynsamlegar og ógagnlegar aðferðir til þess að ná árangri. Góðu fréttirnar eru að til er mikil haldbær þekking á því hvaða aðferðir skila fólki sem bestum árangri.

Hér gefst aðeins rými til þess að skoða einn hinna mikilvægu þátta sem skilar fólki árangri, en það er skýr framtíðarsýn. Þeir sem ná raunverulegum árangri sjá framtíð sína fyrir sér og skilgreina þá útkomu sem þeir vilja fá áorkað, þannig að þeir geti beint kröftum sínum að þeim markmiðum. Það einkennir marga sem segjast ekki vera að ná árangri að þeir hafa ekki skýra framtíðarsýn um hvað þeir vilja. Hvernig geturðu ákveðið hvaða veg þú ferð ef þú veist ekki hvert þú ert að fara? Hvernig geturðu vitað hvort þú hefur komist þangað sem þú vilt ef þú ákvaðst aldrei hvert þú ætlaðir að fara?

En hvað er það sem þú raunverulega vilt fá áorkað í lífinu? Mörgum finnst erfitt að svara þeirri spurningu. Ein megin ástæðan er að margir hafa ríka tilhneigingu til þess að efast um að það sem þeir óska sér sé mögulegt. Þessar efasemdir, ásamt öðrum hamlandi þáttum, gera það að verkum að allt of margir búa sér aldrei til skýra og háleita framtíðarsýn sem inniheldur það sem þeir raunverulega þrá og langar mest í. Ef þú hefur ekki þegar gert það, hvet ég þig til þess að búa þér til þína eigin heillandi og háleita framtíðarsýn. Leyfðu þér að dreyma og sjá hvað það er sem þú þráir í raun mest í lífinu, jafnvel þótt þú hafir efasemdir í augnablikinu um að geta náð þangað. Gerðu þetta í einrúmi, helst þar sem þú hefur gott næði og frið frá hversdagslegu áreiti, og leitaðu inn á við. Beindu athyglinni að þér og þinni persónulegu sýn á framtíðina. Þín framtíðarsýn á að byggjast á því sem þú þráir, því sem skiptir þig mestu máli og þínum gildum, en ekki hugmyndum þínum um hvað aðrir eða samfélagið metur sem árangur. Sjáðu fyrir þér bæði hverju þú hefur áorkað og hver þú ert í framtíðarsýninni. Með því hefurðu tekið mikilvægt skref í áttina að því að ná þeim árangri.

Haukur Sigurðsson sálfræðingur

Haukur Sigurðsson sálfræðingur

Jákvæðar fantasíur um framtíðardrauma hamla árangri

Jákvæðar fantasíur um framtíðardrauma hamla árangri

Í sjálfshjálparbókum og fyrirlestrum af slíku tagi er fólki kenndar aðferðir til þess að ná hámarks árangri og öðlast hamingju í lífinu. Ein þessara ráðlegginga …

Lesa meira →
Gagnrýni

6 árangursríkar aðferðir við að gagnrýna

Flestum finnst óþægilegt að gagnrýna aðra og við erum oft óörugg gagnvart því hvernig er best að koma gagnrýni til skila. Ein algengasta ráðlegging um …

Lesa meira →
Hróssamloka

Hættu að bera hróssamlokuna á borð

Eins og líklega flest ykkar hef ég sinnt hlutverkum, til dæmis sem foreldri og stjórnandi á vinnustað, þar sem nauðsynlegt er að gagnrýna störf eða …

Lesa meira →