Hamingjugildran

Getur verið að flestar hugmyndir þínar og viðhorf um það hvernig þú öðlast hamingju séu ekki réttar, leiði þig á rangar brautir og vinni í raun gegn því að þú upplifir hamingju? Rannsóknarniðurstöður í sálfræði hafa undanfarið bent til þess að mjög margir séu fastir í eins konar hamingjugildru. Fólk leitar mikið að hamingjunni en eftir því sem meira er leitað og sóknin í betri líðan er meiri, þeim mun verr líður fólki.

Hvað veldur því að við erum mörg föst í þessari gildru? Eitt af því sem virðist hafa mikil áhrif er að við lifum lífinu að stórum hluta til á grundvelli óhjálplegra og rangra hugmynda um hamingju. Þessar hugmyndir eða skoðanir falla í góðan jarðveg í samfélagslegri umræðu enda virðast þær á yfirborðinu röklegar og góðar. Þær koma endurtekið fram í afþreyingarefni og sjálfshjálparbókum um hamingju og betra líf.

Til dæmis virðist nútímasamfélag gera ráð fyrir því að hamingja sé hið eðlilega tilfinningalega ástand manneskjunnar og allt annað tilfinningalegt ástand því eitthvað óæskilegt. Staðreyndin er sú að það er ekki manninum eðlislegt að vera alltaf hamingjusamur. Það er manninum jafn eðlislegt að ganga í gegnum ýmsar þrautir og upplifa óþægilegar og erfiðar tilfinningar. Slík reynsla og upplifun er óhjákvæmilegur partur af eðlilegu lífi. Því miður halda margir að allir hinir séu miklu hamingjusamari en þeir sjálfir og slík hugsun skilar auðvitað ekki meiri hamingju, þvert á móti. Það virðist einnig sterkt viðhorf í nútíma vestrænu samfélagi að tilfinningaleg þjáning sé óeðlileg enda er hún skilgreind í miklum mæli sem veikleiki eða sjúkdómar. Þetta hefur þær afleiðingar að margir líta á það sem veikleikamerki þegar þeir upplifa eðlilega þjáningu í hugsun sinni og tilfinningum. Í því samfélagi sem við lifum í er lögð ofuráhersla á vellíðan og segja má að menning okkar sé heltekin af hugmyndinni um að finna hamingjuna. Meðal ríkjandi viðhorfa samfélagsins er að til þess að lifa betra lífi verðum við að finna minna af neikvæðum tilfinningum og meira af jákvæðum tilfinningum í staðinn. Þetta hljómar ágætlega og jafnvel röklega í fyrstu en þegar betur er að gáð má sjá að slíkt viðhorf snýst upp í andhverfu sína. Það er nefnilega þannig að því, sem fólk metur hvað mest í lífinu, fylgja alls konar tilfinningar, bæði þægilegar og óþægilegar. Til dæmis þá þykja flestum foreldrum börnin sín eitt það dýrmætasta sem þeir eiga. Að eignast og ala upp barn fylgja ekki aðeins jákvæðar tilfinningar og þægindi heldur einnig óþægindi, eins og til dæmis áhyggjur og þreyta eins og allir foreldrar þekkja.

Langtíma ástarsamband er einnig dýrmætur partur af lífi margra en því fylgir ekki aðeins ást og unaður, heldur er eðlilegur partur af slíkri vegferð einnig pirringur og vonbrigði svo dæmi séu nefnd. Það sama á við um nánast öll verkefni sem eru okkur mikilvæg í lífinu. Þótt þeim geti sannarlega fylgt tilhlökkun og áhugi þá fylgir slíkum verkefnum oft einnig streita og kvíði, og það er eðlilegt. Neikvæðar tilfinningar og óþægindi eru óumflýjanlegur partur af því að öðlast margt af því sem okkur er kærast eða skiptir okkur miklu máli. Það má því segja að það sé ómögulegt að bæta lífið ef fólk er ekki tilbúið að upplifa óþægilegu tilfinningarnar.

En af hverju þarf dýrmætum verkefnum lífsins að fylgja óþægindi? Átt þú ekki að geta haft sæmilega stjórn á því hvað þú hugsar og hvernig þér líður? Staðreyndin er sú að fólk hefur mun minni stjórn á hugsunum sínum og tilfinningum heldur en það vill og gerir kröfu um. Hins vegar hefur manneskjan mjög mikla stjórn á atferli sínu, hvort hún borðar hollt eða óholt, hreyfir sig eða ekki, leggur sig fram í vinnu eða skóla, kemur vel eða illa fram í samskiptum, og svo framvegis. Gallinn er að fólk hegðar sér oft ekki í samræmi við það sem það veit að er best fyrir það. Þú nærð ekki fram betra lífi með því að leita að hamingjunni eða reyna að hafa stjórn á tilfinningum þínum. Betra eða innihaldsríkara líf færðu með því að hegða þér í samræmi við þín eigin gildi. Því nærðu með því að setja þér skýr atferlisleg markmið og sættast við þau óþægindi sem fylgja þeim framkvæmdum.

Haukur Sigurðsson sálfræðingur

Sálrænn sveigjanleiki algengasta mikilvæga breytingaferlið

Sálrænn sveigjanleiki algengasta mikilvæga sálræna breytingaferlið

Niðurstöður einnar stærstu kerfisbundnu fræðilegu samantektar í sögu sálfræðinnar, sem nýlega birtust í tímaritinu Behavior Research and Therapy, sýna eftirtektarverðar niðurstöður um það hvað virkar …

Lesa meira →
ACT meðferðarformið

ACT meðferðarformið og byltingin í sálfræðimeðferð

Getur verið að lykillinn að bættu geðheilbrigði sé að hverfa frá hinu ríkjandi sjúkdómamódeli þar sem megin áherslan er að draga úr einkennum? Er kominn …

Lesa meira →
Jákvæðar fantasíur um framtíðardrauma hamla árangri

Jákvæðar fantasíur um framtíðardrauma hamla árangri

Í sjálfshjálparbókum og fyrirlestrum af slíku tagi er fólki kenndar aðferðir til þess að ná hámarks árangri og öðlast hamingju í lífinu. Ein þessara ráðlegginga …

Lesa meira →

Skrá mig á póstlistann

* Nauðsynlegt
Ég hef áhuga á (veldu annað eða bæði)