Hlúðu að geðheilsunni í sóttkví

Á meðan yfirvöld og við öll berjumst við að hefta útbreyðlsu covid-19 veirunnar er sóttkví orðin nánast eins og hversdagslegur hlutur. Núna, um miðjan nóvember 2021, eru um 2.400 í sóttkví og yfir 72 þúsund manns hafa lokið sóttkví frá því faraldurinn hófst. Þessar tölur eiga eftir að hækka.

Í yfirlitsrannsókn sem birt var í læknatímaritinu The Lancet kemur fram að sálræn áhrif þess að vera í sóttkví geta verið veruleg, með afleiðingum eins og kvíða, reiði, svefntruflunum, þunglyndi og áfallastreitu. Manneskjan er félagsvera og félagsleg einangrun til lengri tíma (án þess að grípa til aðgerða til að halda geðheilsunni sem bestri) leiðir almennt til aukins kvíða, þunglyndis og hjálparleysis. Mælt er með því að fólk sé vakandi fyrir einkennum eins og miklum ótta og áhyggjum af eigin heilsu, svefnleysi eða mjög breyttu svefnmynstri, erfiðleikum með einbeitingu, versnun krónískra heilsufarsvandamála og aukningu í notkun áfengis, tóbaks eða annarra lyfja.

Við treystum því að þær aðgerðir sem yfirvöld grípa til við þessar erfiðu aðstæður séu nauðsynlegar og við viljum öll standa saman í því að ná sem bestum árangri við að hefta útbreiðslu veirunnar. En hvað getum við gert til þess að hlúa sem best að geðheilsunni í sóttkví? Hér eru góð ráð:

 • Skipulegðu þig og farðu eftir skýrri rútínu yfir daginn. Farðu á fætur eins og vant hefur verið og klæddu þig, farðu í sturtu og matastu á þeim tímum sem þú ert vanur/vön.
 • Brjóttu upp daginn. Ekki hanga við að gera það sama löngum stundum. Breyttu um viðfangsefni og breyttu um umhverfi eins og kostur er.
 • Borðaðu holt, haltu reglu á svefninum og stundaðu einhvers konar líkamsrækt/hreyfingu á hverjum degi.
 • Leitaðu leiða til þess að hjálpa öðrum. Að hjálpa öðrum nærir okkur og veitir innri fyllingu.
 • Haltu sambandi. Nútíma tækni gerir okkur kleyft að vera í sambandi þótt ekki sé hægt að hittast í eigin persónu. Nýttu þessa tækni vel og vertu í reglulegu sambandi við vini og ættingja.
 • Takmarkaðu lestur, hlustun og áhorf á efni um covid-19 faraldurinn, sérstaklega efni sem kemur frá samfélagsmiðlum. Það er gott að fylgjast vel með en of mikil berskjöldun gagnvart fréttum og öðru efni um covid-19 eykur kvíða og ýkir hættumat okkar.
 • Gerðu raunhæfar væntingar til þess hverju þú getur komið í verk yfir daginn. Margir eru í þeirri stöðu að vinna heima en einnig að þurfa að sjá um börnin sín sem einnig eru heima vegna takmarkana á leik- og grunnskólahaldi. Kröfur um að geta einbeitt sér að vinnu eins og um venjulegan vinnudag sé að ræða, eru óraunhæfar fyrir marga.
 • Finndu þér eitthvað skemmtilegt að gera eins og að horfa á áhugavert sjónvarpsefni, lesa góða bók, eða vinna að einhverju áhugaverðu sem hefur setið á hakanum.
 • Leyfðu öllum þeim tilfinningum og hugsunum sem spretta upp að koma og vera. Það er allt í lagi að finna fyrir kvíða, leiða, reiði eða hverju því sem þú finnur fyrir innra með þér. Þér líður eins og þér líður. Það er allt og sumt.
 • Leiddu hugann að því hver þú ert, fyrir hvað þú stendur og hvaða tilgangi þú ert að þjóna. Ef þú ert að í sóttkví, leiddu hugann af því af hverju þú ert að gera það – og er ekki svarið að það er vegna þess að þú ert ábyrg og góð manneskja sem axlar þá ábyrgð að gera það sem í þínu valdi stendur til þess að hjálpa samfélaginu að komast í gegnum þetta.
 • Taktu einn dag í einu og mundu að þetta tekur enda.

Uppfært 22.11.2021

Haukur Sigurðsson sálfræðingur

Sálrænn sveigjanleiki algengasta mikilvæga breytingaferlið

Sálrænn sveigjanleiki algengasta mikilvæga sálræna breytingaferlið

Niðurstöður einnar stærstu kerfisbundnu fræðilegu samantektar í sögu sálfræðinnar, sem nýlega birtust í tímaritinu Behavior Research and Therapy, sýna eftirtektarverðar niðurstöður um það hvað virkar …

Lesa meira →
ACT meðferðarformið

ACT meðferðarformið og byltingin í sálfræðimeðferð

Getur verið að lykillinn að bættu geðheilbrigði sé að hverfa frá hinu ríkjandi sjúkdómamódeli þar sem megin áherslan er að draga úr einkennum? Er kominn …

Lesa meira →
Jákvæðar fantasíur um framtíðardrauma hamla árangri

Jákvæðar fantasíur um framtíðardrauma hamla árangri

Í sjálfshjálparbókum og fyrirlestrum af slíku tagi er fólki kenndar aðferðir til þess að ná hámarks árangri og öðlast hamingju í lífinu. Ein þessara ráðlegginga …

Lesa meira →

Skrá mig á póstlistann

* Nauðsynlegt
Ég hef áhuga á (veldu annað eða bæði)