Hvernig geri ég drauma mína að veruleika?

Ef þú hefur ekki þegar gert það, hvet ég þig til þess að búa þér til þína eigin heillandi og háleita framtíðarsýn. Leyfðu þér að dreyma og sjá hvað það er sem þú þráir mest og skiptir þig mestu máli í lífinu. Hefur þú kannski heillandi og háleitar hugmyndir um hverju þú myndir vilja áorka en gengur illa að koma þeim í framkvæmd. Þeir sem þjást af fullkomnunar- eða frestunaráráttu hafa oft heillandi framtíðarsýn en skortir færni til að koma hugmyndum sínum í framkvæmd.

Framtíðarsýn er nauðsynleg en ekki nægjanleg til þess að hámarka líkur á árangri. Þótt heillandi framtíðarsýn sé mikilvæg gefa hins vegar rannsóknarniðurstöður í sálfræði til kynna að það að stunda það reglubundið að ímynda sér sjálfa(n) sig hafa náð hinum fullkomna árangri og ætlaðri hamingju sem því fylgir stuðlar ekki að betri árangri, nema síður sé (sjá pistilinn Jákvæðar fantasíur um framtíðardrauma hamla árangri)

Ásamt heillandi framtíðarsýn er nauðsynlegt að útbúa raunsæja áætlun um það hvernig þú ætlar að gera framtíðarsýn þína að veruleika. Það felur í sér að þú setur þér markmið. Markmið veita þér stefnu til aðgerða, byggja undir áhugahvöt til athafna og hvetja þig til lausnamiðaðrar hugsunar um hvernig þú nærð árangri. En markmið eru aðeins áhrifarík ef þau eru sett á skynsaman hátt og þar skipta nokkur grundvallaratriði lykilmáli.

Árangursrík markmið eru ögrandi eða krefjandi. Fólk sem setur sér krefjandi markmið áorkar meiru en þeir sem setja sér hógværari markmið. Þetta á þó aðeins við upp að vissu marki því markmið sem eru það krefjandi, að óraunhæft er að geta staðið við þau, vinna gegn árangri. Settu þér því markmið sem eru bæði krefjandi og raunsæ.

Markmið verða enn árangursríkari ef þau eru sértæk en ekki almenn. Þegar þú setur þér almenn markmið eins og að „gera þitt besta“ ertu ekki að hámarka líkur á því að þú gerir í raun þitt besta. Slík markmið veita of mikið rúm fyrir órökréttar réttlætingar og frestun á mikilvægum verkefnum. Settu þér markmið sem eru það sértæk að þú veist nákvæmlega hvenær þú ert að standa við þau og hvenær ekki.

Raunverulegur árangur í lífinu næst með því að áorka einhverju en ekki forðast hluti. Markmið um að forðast eitthvað veldur því að athygli þín beinist að því sem þú vilt ekki og það vinnur gegn árangri. Þegar þú setur þér markmið um að framkvæma eitthvað eða áorka einhverju beinir það athyglinni að því sem þú vilt og eykur líkur á árangri.

Mælanleg markmið leiða til betri árangurs en þau sem ekki er hægt að mæla. Þegar þú mælir árangur getur þú með fylgst betur með því hvort þú nærð markmiðum þínum eða ekki og það verður þér hvatning til dáða.

Markmið sem hafa stuttan tímafrest mynda meiri hvata í hinu daglega lífi en langtímamarkmið. Þótt langtímamarkmið geti verið nytsamleg er ráðlagt að brjóta slík markmið í smærri undirmarkmið. Legðu áherslu á að vinna mest með markmið þar sem tímafresturinn er talinn í klukkustundum og dögum.

Að lokum, settu þér markmið sem eru þér mikilvæg og í samræmi við þína eigin framtíðarsýn og gildi. Með því að fylgja þessum grundvallaratriðum við að setja þér markmið eykur þú verulega líkur á því að framtíðarsýn þín verði að veruleika.

Haukur Sigurðsson sálfræðingur

Sálrænn sveigjanleiki algengasta mikilvæga breytingaferlið

Sálrænn sveigjanleiki algengasta mikilvæga sálræna breytingaferlið

Niðurstöður einnar stærstu kerfisbundnu fræðilegu samantektar í sögu sálfræðinnar, sem nýlega birtust í tímaritinu Behavior Research and Therapy, sýna eftirtektarverðar niðurstöður um það hvað virkar …

Lesa meira →
ACT meðferðarformið

ACT meðferðarformið og byltingin í sálfræðimeðferð

Getur verið að lykillinn að bættu geðheilbrigði sé að hverfa frá hinu ríkjandi sjúkdómamódeli þar sem megin áherslan er að draga úr einkennum? Er kominn …

Lesa meira →
Jákvæðar fantasíur um framtíðardrauma hamla árangri

Jákvæðar fantasíur um framtíðardrauma hamla árangri

Í sjálfshjálparbókum og fyrirlestrum af slíku tagi er fólki kenndar aðferðir til þess að ná hámarks árangri og öðlast hamingju í lífinu. Ein þessara ráðlegginga …

Lesa meira →

Skrá mig á póstlistann

* Nauðsynlegt
Ég hef áhuga á (veldu annað eða bæði)