Hversdagslegar hetjur í Covid-19 faraldrinum

Hversdagslegar hetjur í Covid-19 faraldrinum

Ef þú hefur yndi af skáldsögum og bíómyndum þá er líklegt að þú hafir endurekið heillast af sögum af venjulegum einstaklingum sem, án fyrirvara, er skorað á að ganga í gegnum erfiðar og óvenjulegar aðstæður og atburði. Slík byrjun er eitt einkenni svokallaðrar frumgoðsögu sem Joseph Campbell goðsagnarfræðingur varpaði ljósi á um miðja síðustu öld. Um er að ræða eins konar kjarnasögu sem endurtekur sig í öllum goðsögum heimsins og ævintýrum allra tíma, en einnig skáldsögum og bíómyndum nútímans. Og það sem mestu máli skiptir, er að þetta er saga sem endurtekur sig í lífssögum okkar allra. Þetta er ekki saga ofurhetju, heldur hetjusaga venjulegs einstaklings sem leitast við að fóta sig í tilverunni. Þetta er saga af þér.

Í byrjun sögunnar gengur lífið sinn vanagang en fyrirvaralaust stendur hetjan frammi fyrir vandamáli sem verður að ákalli um að takast á við vandann. Í fyrstu er hetjan hikandi vegna þess að hún er hrædd við hið óþekkta. Hún ákveður svo að fara hina göfugu en þjáningarfullu vegferð sem að lokum verður öðrum til góðs. Strákurinn er sendur að leita að búkollu, Fróði í Hringadróttinssögu fær hring að passa og Oskar Schindler fær tækifæri til að bjarga mannslífum.

Við upphaf ársins 2020 gekk lífið sinn vanagang hjá okkur, þar til við stóðum allt í einu frammi fyrir miklum vanda. Vanda sem varð um leið ákall til okkar allra um að grípa til aðgerða. Vegferðin sem við erum kölluð til felur í sér handþvott, handspritt, að bera grímur, sóttkví, að halda fjarlægðartakmarkanir, samkomubann, lokun vinnustaða og fleira. Það að feta þessa vegferð er erfitt vegna kvíðans og óöryggisins sem fylgir því að stíga inn í hið óþekkta, en einnig vegna þess að við söknum þess að vera í nánd við hvert annað í gleði og sorg. Auk þess verða margir fyrir atvinnumissi og miklu tekjutapi vegna aðgerða sem gripið er til svo halda megi faraldrinum í skefjum. Þessi vegur er ekki stuttur, heldur er hann langur og grýttur, og þetta á eftir að verða erfiðara, þjáningin á eftir að verða meiri.

Hvað gerir hin hversdagslega hetja við þessar aðstæður? Hvað gerir þú þegar faraldurinn hefur staðið yfir í langan tíma og þjáningin og þreytan er svo mikil að þér finnst þú ekki geta meira? Þetta snýst ekki bara um þig, heldur um aldraðan nágranna þinn, vini þína og fjölskyldumeðlimi sem eru með undirliggjandi sjúkdóma. Það sem þú gerir getur haft áhrif á það hvort samborgari þinn lifir eða deyr. Þetta veistu og þú stendur fyrir það að gera allt sem þú getur til að verja þetta fólk. Það er partur af því hver þú ert sem manneskja. Það er engin betri leið til að göfga tilvist þína en að líta til hinna æðri gilda og skuldbinda þig til þess að lifa lífinu í samræmi þau. Þá hefurðu tekið stefnu sem er í samræmi við sannleika þinn, sem er eina stefnan sem er rétt fyrir þig að miða á. Síðan raungerist næsti dagur fullur af áskorunum og vandamálum og ef þú leysir þau með viðeigandi hætti þá ertu á réttri leið.

Tryggðu öryggi þitt og heilsu eins og kostur er. Farðu eftir öllum reglum og tilmælum yfirvalda um sóttvarnir. Vertu sú hversdagslega hetja sem sögur eru sagðar af í bókum og bíómyndum. Sagan þín verður sennilega ekki fest á filmu eða skrifuð í bók, en fólk mun minnast þinnar sögu þegar þetta er yfirstaðið. Fólk eins og þú sjálf(ur), börnin þín, ættingjar og vinir. Vertu sú hversdagslega hetja sem getur litið til baka þegar faraldurinn er yfirstaðinn og séð að þú gerðir allt sem í þínu valdi stóð til að draga úr hættu og bjarga mannslífum.

Og ef þú hrasar, eða ert alveg að gefast upp, minntu þig þá á hver þú ert og fyrir hvað þú stendur. Stattu svo aftur upp og fetaðu áfram veginn þinn, vegferð hinnar hversdagslegu hetju.

Uppfært 28.10.2020

Haukur Sigurðsson sálfræðingur

Sálrænn sveigjanleiki algengasta mikilvæga breytingaferlið

Sálrænn sveigjanleiki algengasta mikilvæga sálræna breytingaferlið

Niðurstöður einnar stærstu kerfisbundnu fræðilegu samantektar í sögu sálfræðinnar, sem nýlega birtust í tímaritinu Behavior Research and Therapy, sýna eftirtektarverðar niðurstöður um það hvað virkar …

Lesa meira →
ACT meðferðarformið

ACT meðferðarformið og byltingin í sálfræðimeðferð

Getur verið að lykillinn að bættu geðheilbrigði sé að hverfa frá hinu ríkjandi sjúkdómamódeli þar sem megin áherslan er að draga úr einkennum? Er kominn …

Lesa meira →
Jákvæðar fantasíur um framtíðardrauma hamla árangri

Jákvæðar fantasíur um framtíðardrauma hamla árangri

Í sjálfshjálparbókum og fyrirlestrum af slíku tagi er fólki kenndar aðferðir til þess að ná hámarks árangri og öðlast hamingju í lífinu. Ein þessara ráðlegginga …

Lesa meira →

Skrá mig á póstlistann

* Nauðsynlegt
Ég hef áhuga á (veldu annað eða bæði)