Jákvæðar fantasíur um framtíðardrauma hamla árangri

Jákvæðar fantasíur um framtíðardrauma hamla árangri

Í sjálfshjálparbókum og fyrirlestrum af slíku tagi er fólki kenndar aðferðir til þess að ná hámarks árangri og öðlast hamingju í lífinu. Ein þessara ráðlegginga er að viljir þú hvetja sjálfa(n) þig til dáða ættir þú í ríku mæli að ímynda þér framtíðina þar sem þú nýtur þess að hafa náð þeim árangri sem þú stefnir á. Sjálfshjálpargúrúinn er líklegur til að segja þetta einhvern veginn svona: „Lokaðu augunum. Sjáðu sjálfa(n) þig fyrir þér á betri stað, sem betri þú. Heilsubetri, meira aðlaðandi, ríkari, í drauma vinnunni þinni. Ímyndaðu þér hvernig þú myndir upplifa þig fulla(n) sjálfstrausts og hamingju.“

Þessir ráðgjafar segja okkur að þetta sé einn lykillinn að árangri og hamingju, en fjölmargar rannsóknir í sálfræði benda til þess að aðferðin vinni í raun gegn árangri. Í einni rannsókninni sýndu niðurstöður að meðal þeirra sem stefndu að því að finna nýja vinnu, eignast maka, ná prófi og komast í gegnum skurðaðgerð, gekk þeim ver sem stunduðu það að sjá fyrir sér hinn fullkomna stað við enda vegferðarinnar. Þegar atvinnuleitendurnir voru skoðaðir betur kom í ljós að þeir sem stunduðu slíka ímyndun um framtíðina sóttu um færri störf, fengu færri atvinnutilboð og voru með lægri laun en hinir.

Í annarri rannsókn frá árinu 2011 var líkamsorka mæld í fjórum tilraunum. Niðurstöðurnar sýndu að líkamsorka minnkaði við það að kalla fram jákvæðar fantasíur um framtíðina og er það mögulega ein skýringin á því af hverju slíkar fantasíur draga úr árangri.

Vandamálið við jákvæðar ímyndir af þessu tagi er að þær gera okkur kleift að sjá fyrir þann árangur sem við viljum og þá jákvæðu upplifun sem við ímyndum okkur að fylgi. Þær vara okkur hins vegar ekki við þeim vandamálum og þjáningum sem við mætum líklega á leiðinni. Þetta skilar því að við verðum ekki eins viðbúin slíkum hindrunum og náum þannig ekki eins góðum árangri við að takast á við þær. Þetta er ein af þeim fjölmörgu dæmum um það hvernig stórkostleg hæfni mannheilans bregst okkur. Ótrúleg hæfni hans til þess að framkalla sýndarveruleika um framtíðar ávinninga hefur þá aukaverkun að letja okkur gagnvart því að grípa til aðgerða sem nauðsynlegar eru til að ná þessum markmiðum í raunveruleikanum.

Lykilinn að árangri er því ekki að stunda það að framkalla ímyndir um hinn fullkomna árangur framtíðarinnar eða þá miklu hamingju sem þú sérð fyrir að upplifa þegar þangað er komið. Leggðu frekar áherslu á að sjá fyrir þær hindranir og þjáningu sem fylgja vegferðinni í átt að markmiðinu og byggðu upp vilja þinn til að upplifa hvoru tveggja. Hafðu trú á því að sá árangur sem þú stefnir að sé mögulegur og umfram allt, fetaðu þinn veg í samræmi við hver þú ert og fyrir hvað þú stendur. Legðu svo áherslu á að lifa hvert augnablik vegferðarinnar í sátt við það sem þú upplifir hverju sinni, bæði gleðina og þjáninguna.

Haukur Sigurðsson sálfræðingur

Sálrænn sveigjanleiki algengasta mikilvæga breytingaferlið

Sálrænn sveigjanleiki algengasta mikilvæga sálræna breytingaferlið

Niðurstöður einnar stærstu kerfisbundnu fræðilegu samantektar í sögu sálfræðinnar, sem nýlega birtust í tímaritinu Behavior Research and Therapy, sýna eftirtektarverðar niðurstöður um það hvað virkar …

Lesa meira →
ACT meðferðarformið

ACT meðferðarformið og byltingin í sálfræðimeðferð

Getur verið að lykillinn að bættu geðheilbrigði sé að hverfa frá hinu ríkjandi sjúkdómamódeli þar sem megin áherslan er að draga úr einkennum? Er kominn …

Lesa meira →
Gagnrýni

6 árangursríkar aðferðir við að gagnrýna

Flestum finnst óþægilegt að gagnrýna aðra og við erum oft óörugg gagnvart því hvernig er best að koma gagnrýni til skila. Ein algengasta ráðlegging um …

Lesa meira →

Skrá mig á póstlistann

* Nauðsynlegt
Ég hef áhuga á (veldu annað eða bæði)