ACT grunnur. Námskeið fyrir fagfólk í ACT meðferðarforminu.

ACT GRUNNUR 3. nóv – 3. des 2021 (5x vikulega á mið 16:00-18:00 + 1x í fös 15:00-17:00, samtals 6 skipti)

Sæti á þetta námskeið eru uppseld. Skráðu þig á póstlistann hér og vertu fyrst(ur) til að fá upplýsingar um ný námskeið/dagsetningar.

Acceptance and Commitment Therapy (ACT) er örast vaxandi sálfræðilega meðferðin í heiminum í dag og ekki af ástæðulausu. ACT, sem partur af stærri byltingu í framkvæmd sálfræðilegrar meðferðar, hefur gjörbreytt lífi bæði skjólstæðinga og meðferðaraðila á margan hátt og haft mikil áhrif á sálfræði sem fræðigrein. ACT hefur blómstrað sem rannsóknargrunnur og klínísk meðferð um allan heim. ACT nýtur ekki aðeins síaukinna vinsælda sem halda áfram að vaxa, heldur virðist aðferðin hafa sérstök og persónuleg áhrif á fólk. Ólíkt nánast öllum öðrum klínískum aðferðum þá er ACT í raun ekki ein tiltekin klínísk tækni, heldur umfangsmikill og sveigjanlegur meðferðarrammi sem byggður er á sterkum vísindalegum grunni. Rannsóknir hafa sýnt að ACT má nota með afar góðum árangri við meðferð á stærstum hluta algengra umkvartana fólks sem leitar sér meðferðar.

Í ACTGRUNNI leiðir Haukur Sigurðsson sálfræðingur þig í gegnum kenningarlegar og heimspekilegar undirstöður ACT meðferðarformsins, kynnir ACT módelið og klínískar aðferðir sem byggja á því. Þátttakendur fá tækifæri til að ganga í gegnum æfingar þar sem þeir fá beina persónulega reynslu af áhrifaríkum ACT aðferðum sem hreyfa við sálrænum ferlum í átt að auknum sálrænum sveigjanleika, árangri og fyllingu í lífinu.

Eftir að hafa lokið ACTGRUNNI verður þú með góðan grunnskilning á þeim kenningum og þeim heimspekilegu forsendum sem ACT byggir á og grunnþjálfun í völdum lykilaðferðum meðferðarinnar.


 

ACTGRUNNUR er góður kostur fyrir þig ef:

 • Þú ert að vinna við ráðgjöf eða meðferð með fólki til þess að hjálpa þeim að virkja hæfileika sína, skapa innihaldsríkt líf og frelsi
 • Þú vilt rifja upp megin lögmál ACT og heimspekilegan grunn sem merðferðarkerfið byggir á.
 • ACT er nýtt fyrir þér og þú vilt læra ACT frá grunni og byrja að byggja upp meðferðarfærni í grunnaðferðum ACT
 • Þú hefur reynslu af ACT sem meðferðaraðili en vilt rifja upp á hvaða megin vísindaheimspekilegum stoðum ACT stendur og rifja upp eða bæta við þig grunnaðferðum ACT meðferðar
 • Þú vilt tileinka þér meðferðarform sem gerir þér kleift að sjá hvað er að virka með því að fylgjast beint með skjólstæðingum þínum og ganga lengra heldur en hefðbundnar aðferðir sem byggja á greiningu geðraskana og ströngum meðferðaraðgerðalýsingum

Námskeiðið er hugsað fyrir þá sem starfa við meðferð eða stunda nám sem miðar að slíkum störfum. Æskilegt er að þátttakendur hafi grunnþekkingu á atferlisfræðilegum kenningum/lögmálum sálfræðinnar og séu í virkri klínískri eða ráðgjafarvinnu með fólki.


efnistök námskeiðsins

 • Inngangur að ACT
 • Gagnreynd meðferð síðustu áratugi og ferlimiðuð meðferð
 • Hugmyndafræðilegur/heimspekilegur grunnur ACT
 • Meðferðarsambandið
 • Sex lögmál/ferli ACT módelsins sem hafa áhrif á sálrænan sveigjanleika/ósveigjanleika (ACT módelið útskýrt)
  • Móttaka upplifana
  • Hugræn aðgreining
  • Tenging við núverandi stund
  • Yfirskilvitleg sjálfsvitund
  • Gildi
  • Skuldbundið atferli
 • Klínísk merki um ósveigjanleika í öllum meginþáttum ACT módelsins
 • Klínískar aðferðir til að hreyfa við öllum sex ferlum ACT módelsins til að skapa sálrænan sveigjanleika

Nánari tilhögun námskeiðsins

Námskeiðið verður haldið vikulega í fimm skipti á miðvikudögum frá kl. 16:00 til 18:00 frá 3. nóvember 2021. Síðasta skiptið verður svo föstudaginn 3. desember kl. 15:00 til 17:00. Við verðum í fyrirlestrasal Sálfræðistofunnar Höfðabakka, Höfðabakka 9, 110 Reykjavík. Kennslutilhögun verður sambland af fyrirlestrarformi, sýnikennslu, beinum æfingum í ACT aðferðum, svöruðum spurningum úr sal, umræðum, lestri á milli tíma og skriflegra æfinga.


Persónuleg skilaboð frá Hauki

Ég giska á að þú sért að vinna við meðferð vegna þess að þú vilt hjálpa fólki að gera breytingar sem stuðla að auknum árangri og fyllingu lífins. Til þess að ná sem bestum árangri í meðferð þá er nauðsynlegt að stíga út fyrir hina hefðbundnu aðferðarfræði þar sem áhersla er fyrst og fremst á að draga úr einkennum.

Klínísk sálfræði hefur í allt of langan tíma byggt á þeirri hugmynd að best sé að koma fram við mannlega þjáningu sem sjúkdóm sem þarf að meðhöndla í þeim tilgangi að draga úr einkennum. Að mínu mati hefur þessi hugmynd gengið sér til húðar enda fjöldi rannsókna undanfarna áratugi sem benda til að klínískar aðferðir sem byggðar eru á þessum hugmyndafræðilega grunni skili ekki þeim árangri sem ætlast var til.

ACT byggir á öðrum og mannlegri grunni þar sem ekki er komið fram við þjáningu fólks sem einkenni sjúkdóma. Áherslan er á að greina mikilvæg virk ferli í samhengi hvers einstaklings fyrir sig sem hægt er að hreyfa við með aðferðum ACT og þannig færa fólk í átt að auknum sálrænum sveigjanleika, árangri og lífi sem er þess virði að lifa. Rannsóknir sýna að ACT er gagnreynt meðferðarform og skilar oft betri langtímaárangri en hinar hefðbundnu klínísku aðferðir. 

Ég er þeirrar skoðunar að við hjálpum fólki best með aðferðum sem stuðla að dýrmætu og innihaldsríku lífi og efla færni til að taka á móti öllum upplifunum sem slíku lífi fylgja, líka þeim þjáningarfullu.

Þess vegna hef ég lagt áherslu á að mennta mig og þjálfa í ACT, að efla sálrænan sveigjanleika í mínu eigin lífi með aðferðum ACT og þess vegna býð ég þér upp á þetta námskeið svo þú getir beint skjólstæðingum þínum og þér sjálfum/sjálfri í átt að innihaldsríkara og virkara lífi.

Kærleikskveðjur,

Dagsetning

03 nóv 2021
Expired!

Tími

6x mið kl 16 + 1x fös kl 15. Sjá nánar í lýsingu.
16:00

Merki

UPPSELT

Staðsetning

Sálfræðistofan Höfðabakka
Höfðabakki 9, 110 Reykjvík
Vefsíða
https://shb9.is/um-okkur/

Speaker

 • Haukur Sigurðsson
  Haukur Sigurðsson
  Sálfræðingur

  Haukur Sigurðsson er klínískur sjálfstætt starfandi sálfræðingur með áratuga reynslu af sálfræðilegri meðferð og ráðgjöf fyrir einstaklinga, pör og vinnustaði. Haukur hefur haldið hundruð fyrirlestra, m.a. í stærstu fyrirtækjum landsins, auk þess að koma endurtekið fram í sjónvarpi og útvarpi. Starfsferill hans hefur verið stilltur inn á sálfræðilega meðferð við þunglyndi, kvíða, aðlögunarerfiðleikum vegna áfalla, veikindum og erfiðum lífsatburðum.

  Haukur býr einnig yfir sérþekkingu á sviði atferlislæknisfræði í meðferð við m.a. svefnleysi, eyrnasuði, vöðvabólgu, langvarandi verkjum og höfuðverkjum, auk aðlögunarerfiðleika vegna líkamlegra veikinda. Hann sinnir einnig margþættri þjónustu við vinnustaði, sinnir sálfræðilegri ráðgjöf sem miðar að því að bæta samskipti og ýmsa aðra mikilvæga þætti lífsins, og veitir íþróttafólki ráðgjöf sem miðar að því að hámarka árangur. Haukur hefur yfirgripsmikla reynslu af sálfræðilegri ráðgjöf og stuðningi við framlínu- og viðbragðsaðila á borð við heilbrigðisstarfsfólk, björgunarsveitir og lögreglu.

  Haukur notar ACT meðferðarkerfi sem almennan ramma í flestum meðferðarlegum inngripum. ACT er byggt á sterkum reynsluvísindalegum sálfræðilegum grunni og miðar að því að auka sálrænan sveigjanleika með móttöku upplifana og núvitundaraðferðum, hugrænni aftengingu, koma á yfirskilvitlegri sjálfsvitund, mynda tengingu við núverandi augnablik, persónulegum lífsgildum og með því að byggja upp stærri og stærri mynstur skuldbundins atferlis sem er í samræmi við þessi gildi.

  Haukur er einnig menntaður og þjálfaður ýmsum tegundum atferlismeðferðar, hugrænni meðferð, hefðbundinni HAM meðferð og lífendurgjöf (biofeedback).

  Haukur Sigurðsson útskrifaðist með B.A. gráðu í sálfræði frá Háskóla Íslands árið 2001 og M.A. gráðu í klínískri sálfræði frá BGSU háskóla í Bandaríkjunum árið 2007. Starfsreynsla hans er víðtæk, bæði á Íslandi og í Bandaríkjunum, og hefur hann meðal annars starfað sem lögreglumaður, íþróttaþjálfari, á geðdeildum, endurhæfingastöðvum og sjúkrahúsum. Hann stýrði Heilsustöðinni sálfræði- og ráðgjafaþjónustu frá árinu 2008 til 2019 og er einn af stofnendum Félags sjálfstætt starfandi sálfræðinga þar sem hann var varaformaður og síðar formaður félagsins frá 2011-2019.

X
QR Code

Skrá mig á póstlistann

* Nauðsynlegt
Ég hef áhuga á (veldu annað eða bæði)